Grímulaus hótun um eignarupptöku

imagesEnn á ný blöskrar mig virðingaleysi ákveðinna þingmanna fyrir mikilvægi þess að atvinnulíf á landsbyggðinni fái þrifist án yfirvofandi ógnar um eignarupptöku ríkisins.  Stundum er þetta eins og að vera kominn aftur til þess tíma sem menn ræddu þjóðnýtingu og kommúnískt samfélag af fullkominni alvöru. 

Í morgunblaðinu í dag er rætt við þingmenn allra flokka í Norðvesturkjördæmi.  Allir hafa þeir miklar áhyggjur af stöðu mála á Vestfjörðum og þeim áhyggjum deili ég með þeim.  Vestfirðir eru stórkostlegt landsvæði og fólkið þar gott heim að sækja.  Tengdaforeldrar mínir eru í atvinnurekstri á Vestfjörðum og í gegnum þá starfsemi hef ég fylgst með hug og vilja Vestfirðinga til að efla byggð á sínu svæði. 

Skiljanlega er uggur í Vestfirðingum núna í kjölfar þungbærra frétta úr atvinnulífinu og þá ekki síst fréttir af lokun á útibúi Marels.  Þingmenn reyna í slíkum aðstæðum að leggja fram einhverskonar patentlausnir og ekki er laust að lýðskrums gæti korteri í kosningar þegar allir vilja allt fyrir alla gera.

Hinsvegar tekur steininn algerlega úr þegar maður rýnir í orð Jóns Bjarnasonar þingmanns vinstri grænna í morgunblaðinu í dag.  Hann segir: 

“Íbúar og atvinnulíf á Vestfjörðum verða að … hafa forgang að auðlindum sínum til lands og sjávar,“ segir hann. „Fái Vestfirðingar forgangsrétt til að njóta auðlinda sinna í þágu byggðarinnar og allrar þjóðarinnar, þá verður þarna öflugt og gott mannlíf,“ segir Jón.

Hér er ekki um neitt annað að ræða en grímulausa hótun um eignaupptöku.  Hótun um að flytja aflaheimildir með handafli frá byggðalögum eins og Vestmannaeyjum sem hafa sterka kvótastöðu vestur á firði.  Flytja þessar sömu aflaheimildir og fyrirtæki í Vestmannaeyjum hafa keypt dýru verði til sveitarfélaga þar sem fyrirtæki seldu frá sér aflaheimildirnar. Flytja sem sagt vandann á milli byggðalaga.  Nema náttúrulega að Jóni Bjarnasyni hafi tekist að fjölga fiskunum í sjónum því annars verður bara um tilflutning á aflaheimildum að ræða.

Skyldu þessir sömu þingmenn ekki vita að íbúum í Vestmannaeyjum hefur fækkað um nálægt 20% á 15 árum?  Nú þegar loks er bjart framundan bæði vegna nálægra samgöngubóta og mikils uppgangs í sjávarútvegi á að hrifsa lífviðurværið af Eyjamönnum.  Svo mikið er víst að þessi leið mætir andstöðu hér í Eyjum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grétar Ómarsson

Sammála þér Elliði. 

Þarna sýnir Jón Bjarnason útgerðamönnum Eyja og annarstaðar sem eiga miklar aflaheimildir að best er fyrir þá að selja þær strax á meða eitthvað fæst fyrir þær.

 Smá pæling, ég tek dæmi með okkar heimabyggð.

Ef þeir aðilar sem eiga aflaheimildir í Eyjum, heyra svona vitleysu eins og Jón vitnar í, og taka orð hans bókstaflega, ættu kvótakóngar Vestmannaeyja að selja kvótann strax og vera ekkert að velta fyrir sér afleiðinum sveitarfélagsins eða íbúum þess, Jón Bjarnason og hans kollegar hljóta þá að bjóða Eyjamönnum forgangsrétt á auðlindum sjávar í þágu byggðar, og allt verður gott á ný.

Eina sem breytist er að nokkrir útgerðarmenn í Eyjum yrðu millar á einni nóttu. 

Grétar Ómarsson, 13.3.2007 kl. 21:25

2 identicon

Sæll Elliði.  Skreytilist þín og ergelsi minna mig svolítið á fyrri daga,þegar íhaldinu þótti mikið við liggja að salla kommana niður í pólitískri umræðu með því að sýna myndir og færa umræðuna austur á Volgubakka. Af hverju núna, jú nú er það Jón Bjarnason sem er vondi karlinn og hversvegna. Kanske er hann gerður að samnefnara fyrir gott gengi Vinstri grænna í skoðanakönnunum undanfarið?   Eða snögg viðbrögð bæjarstóra Ísafjarðarbæjar á fækkun starfa í bænum, meðan íbúum í Eyjum fækkar um 20% á 15 árum lengst af undir sjórn íhaldsins. Og eins og Grétar bætir við um hætturn á hvað gæti skeð, þegar fáir útvaldir hafa fjöregg byggðarlagsins í hendi sér. Leyfi mér að efast um að Jón Bjarnason hafi komið þar nokkuð nálægt. Spurnigin er því frekar sú, við hverja er sakast að þetta getur gerst?  Með vinsemd og virðingu. Þ.Sig.

Þorkell Sigurjónsson. (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 23:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband